Lög íþróttafélagsins Völsungs

Heiti og markmið

1. grein

Félagið heitir Íþróttafélagið Völsungur, skammstafað Í.F.Völsungur. Heimili þess og varnarþing er á Húsavík.

2. grein

Markmið félagsins er að iðka íþróttir, stofna til íþróttamóta og sýninga, glæða áhuga félagsmanna og annarra á íþróttum og vekja fólk til skilnings á gildi íþróttalífs og félagsstarfa.

Merki og búningur

3. grein

Merki félagsins er skjöldur með grænum grunnfleti, mynd af knetti og bókstöfum Í. F. V. í hvítum lit. Litir félagsins eru grænn og hvítur.

Aðild að heildarsamtökum

4. grein

Félagið er aðili að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sérsamböndum þess. Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Héraðssambandi Þingeyinga (HSÞ).

Félagar og árgjöld

5. grein

Félagi getur hver sá orðið sem þess óskar og samþykkir að taka á sig þær skyldur er því fylgja. Allir þeir sem taka að sér störf í stjórnum og ráðum félagsins verða sjálfkrafa félagsmenn. Sérhverjum iðkanda /félagsmanni, 18 ára og eldri ber að greiða árgjald til félagsins. Árgjöld félagsins skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert. Árgjöld renna í aðalsjóð.

Íþróttadeildir og verkefni þeirra

6. grein

Iðkendur íþróttagreina mynda deildir innan félagsins og skal hver deild hafa sérstaka stjórn og aðskilinn fjárhag. Stjórnir deilda sjá um daglegan rekstur þeirra. Sérhver deild skal annast sinn eigin fjárhag og ber stjórn hennar ábyrgð á fjárhagslegri afkomu deildarinnar gagnvart aðalstjórn og aðalfundi félagsins. Íþróttadeild skal hafa tekjur af kappleikjum og mótum í viðkomandi íþróttagrein, svo og af annarri fjáröflun, sem hún má efna til í samráði við aðalstjórn félagsins. Deildir lúta sameiginlegri stjórn félagsins, sem fer með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda. Ákvörðun um stofnun íþróttadeildar félagsins verður aðeins tekin á aðalfundi félagsins.

7. grein

Hver deild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn, sem skipuð er þrem mönnum hið minnsta. Stjórnir deilda skulu skila til aðalstjórnar félagsins skýrslu um starfsemi viðkomandi deildar. Aðalstjórn skal taka helstu atriði úr skýrslum deildanna í skýrslu sína á aðalfundi félagsins. Reiknisár félagsins og deildanna er 1.janúar til 31.desember.

Rekstur deilda skal vera í jafnvægi.

Allar meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar ber stjórnum deilda að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar. Með meiriháttar skuldbindingum er átt við þær sem eru umfram 300.000 kr. á ári.

Stjórnir deilda skulu skila fjárhagsáætlun fyrir 15. nóvember ár hvert þar sem fram kemur námkvæmt yfirlit yfir tekjur og gjöld fyrir hvern mánuð næsta starfsárs. Gera skal aðalstjórn nákvæma grein fyrir fjárhagsáætlunum sem staðfestir þær eða gerir athugasemdir.

Aðalstjórn hefur á hverjum tíma rétt til að skoða bókhald og fjárreiður deildar og jafnframt skipa sérstaka fjárhagsstjórn ef að þurfa þykir.

Aðalfundur félagsins, fundartími og fundarboð

8. grein.

Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í lok apríl ár hvert. Hann hefur æðsta vald innan félagsins og ákvörðunarrétt í öllum málefnum þess. Aðalfund skal boða rækilega og er hann lögmætur sé til hans boðað með minnst 14 daga fyrirvara. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist aðalstjórn eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund.

Dagskrá aðalfundar félagsins

9. grein.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. a) Formaður setur fundinn.
  2. b) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. c) Skýrsla stjórnar.
  4. d) Að leggja fram til samþykktar ársreikninga félagsins.
  5. e) Að taka ákvörðun um lagabreytingar.
  6. f) Að taka ákvörðun um árgjöld.
  7. g) Að kjósa stjórn og endurskoðendur reikninga félagsins.
  8. h) Að kjósa starfsnefndir, ef þurfa þykir.
  9. i) Að taka til umræðu og afgreiðslu önnur mál.

Félagsfundir

10. grein

Stjórn félagsins getur boðið til almenns félagsfundar, þegar hún telur nauðsynlegt. Skylt skal henni að boða til almenns félagsfundar ef 20 atkvæðisbærir félagsmenn hið minnsta,óska eftir því skriflega.

11. grein

Á fundum félagsins ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum mála,þó skulu lagabreytingar og ákvörðun um stofnun nýrra deilda því aðeins öðlast gildi, að 2/3 hluti atkvæðisbærra fundarmanna greiða þeim atkvæði sitt.

Stjórnarstörf, atkvæðis- og tillöguréttur

12. grein

Allir skuldlausir félagsmenn sem hafa náð lögráða aldri hafa kjörgengi til stjórnarstarfa innan félagsins, atkvæðisrétt, tillögurétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins.

Aðalstjórn, skipan og verkaskipting

13. grein.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm fulltrúum, formanni, gjaldkera, ritara og tveimur meðstjórnendum. Stjórnarkjöri skal haga þannig að formaður er fyrst kosinn sérstaklega og síðan aðrir stjórnarmenn félagsins. Stjórn tilnefni varaformann úr sínum röðum. Kjósa skal tvo fulltrúa sem varamenn í stjórn félagsins. Stjórnina skal kjósa á aðalfundi og nær kjörtímabil hennar til næsta aðalfundar. Á aðalfundi skal kjósa löggiltan endurskoðenda reikninga félagsins.

14. grein.

Formaður boðar til fundar og stýrir þeim. Honum er heimilt að skipa sérstakan fundarstjóra á aðalfundum og almennum félagsfundum. Hann skal boða til stjórnarfunda svo oft sem hann telur nauðsynlegt eða ef einhver stjórnarmaður óskar þess. Ritari bókar fundargerðir og skal sjá um félagatal félagsins. Gjaldkeri hefur umsjá um fjárhag félagsins, innheimtu gjalda og sér um að bókhald félagsins sé í samræmi við góðar bókhaldsreglur.

15. grein.

Stjórnarfundur er lögmætur, ef meirihluti stjórnar situr hann. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum. Falli atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns. Formaður skal jafnan boða varamann til stjórnarfunda, ef aðalmaður forfallast. Heimilt er formanni að boða varamenn til stjórnarfunda þótt aðalmenn séu ekki forfallaðir. Sé aðalstjórn fullskipuð á fundi hafa varamenn tillögurétt og málfrelsi, en ekki atkvæðisrétt.

Aðalstjórn, verkefni.

16. grein.

Aðalstjórn skal gæta hagsmuna félagsins út á við og vinna að því að gera félagsstarfið gróskumikið og skemmtilegt. Hún skal samræma starfsemi deildanna og móta stefnu félagsins í öllum aðalatriðum. Jafnan skal hún hafa samráð við stjórnir deildanna um þau mál er þær varðar. Á aðalfundi skal formaður leggja fram ársskýrslu um starfsemi félagsins og gjaldkeri skila af sér endurskoðuðum ársreikningi þess. Stjórn félagsins ber sameiginlega ábyrgð á fjárreiðum félagsins og skuldbindingum þess. Aðalstjórn getur ein skuldbundið félagið útá við. Þó er félaginu óheimilt að taka lán með ábyrgð einstaklinga.

Viðurkenningar og heiðursmerki

17. grein.

Aðalstjórn veitir viðurkenningar fyrir íþróttaárangur eða störf í þágu félagsins samkvæmt reglum, er hún setur og aðalfundur samþykkir.

Stofnun nýrrar deildar og afskráning deilda

18. grein.

Komi fram ósk meðal félagsmanna um að stofna nýja íþróttadeild innan félagsins, skal hún send skriflega til stjórnar félagsins undirrituð af minnst 50 atkvæðisbærum félagsmönnum.

Aðalstjórninni er þá skylt að leggja fram tillögu um stofnun deildarinnar á næsta aðalfundi félagsins. Samþykki aðalfundur stofnun deildarinnar með tilskyldum meirihluta atkvæða samkv. 11. gr.,skal aðalstjórn boða til stofnfundarins.

19. grein.

Deild sem hefur verið óstarfhæf í 2 ár, þ.e.a.s. ekki skilað inn bókhaldi og starfsársskýrslu til stjórnar, fellur sjálfkrafa undir almenningsíþróttadeildina.

Aðalstjórn getur samþykkt að endurvekja starf í deild sem hefur verið óstarfhæf.

Framlög aðalstjórnar til deilda og fundur með deildum

20. grein.

Aðalstjórn ákveður framlög til deilda úr aðalsjóði félagsins. Hún skal halda fundi með formönnum deildanna svo oft, sem hún telur nauðsynlegt og eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Á þessum fundum skulu deildarformenn gera grein fyrir starfsemi deildanna og starfsemi þeirra samræmd. Komi ágreiningur milli deilda sker aðalstjórn úr.

Eignir félagsins

21. grein.

Allar eignir félagsins eru sameign þess, hvort sem þær eru í umsjá aðalstjórnar eða einstakra deilda. Hætti deild störfum er stjórn deildarinnar skylt að afhenda eignir hennar til aðalstjórnar félagsins til varðveislu. Taki deildin ekki til starfa að nýju innan 5 ára renna eignir hennar í sjóð aðalstjórnar félagsins. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar, þó er félagsstjórn heimilt að afhenda Safnahúsinu á Húsavík til varanlegrar varðveislu fullritaðar fundargerðabækur, bréf og önnur gögn, er kunna að hafa sögu- og safngildi.

Hætti félagið störfum eða það lagt niður, ber að afhenda allar eigur þess, bækur og skjöl, sveitarfélaginu Norðurþingi til varðveislu.

Úrsögn

22. grein.

Úrsögn úr félaginu skal tilkynna framkvæmdastjóra félagsins skriflega og er hún ekki lögmæt fyrr en stjórnin hefur samþykkt hana.

Breytingar á samþykktum

23. grein.

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi.

Gildistaka

24. grein.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi öll eldri lög félagsins.

Húsavík, 17. október 2023
Aðalfundur Í.F.Völsungs.