Byrjendanámskeið í skíðagöngu
Skíðagöngudeild Völsungs stefnir á að halda skíðagöngunámskeið um næstu helgi (12.-14. feb.), bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Leiðbeinandi verður Einar Ólafsson sem er tvöfaldur ólympíufari og hefur einnig keppt á heimsbikar- og heimsmeistaramótum. Einar hefur verið með kennslu í Bláfjöllum í vetur og hefur verið mikil ánægja með störf hans enda þykir hann afar góður leiðbeinandi.
Þessu fylgir eðlilega nokkur kostnaður en hugmyndin er þó að bjóða byrjendum upp á frítt námskeið, en lengra komnir greiði þó þátttökugjald sem ekki er búið að ákveða hvað verður enda fer það eftir áætluðum fjölda þátttakenda. Þess má geta að um er að ræða nokkur skipti fyrir lengra komna yfir helgina enda yrði þá farið ítarlega í ýmis tæknileg atriði ásamt því að taka fyrir nokkrar göngutegundir og -stíla. Þetta fer þó allt eftir því hvernig hópar verða samsettir og hver aðsóknin verður.
Það verður þó ekki farið út í þetta nema það sé áhugi hjá fólki að nýta sér þetta frábæra tækifæri. Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að líta við á fésbókarsíðu skíðagöngudeildarinnar og skrá sig þar í kommenti.
Með því að smella HÉR kemst maður inn á fésbókarsíðu skíðagöngudeildarinnar.
Hvetjum áhugasama til að skrá sig og kynna sér skemmtilega vetraríþrótt við allra hæfi.