Bocciadeild á Íslandsmóti ÍF í sveitakeppni um síðastliðna helgi
Íslandsmót ÍF í sveitakeppni fór fram um síðastliðna helgi. Völsungur átt sex sveitir í mótinu sem léku í 3. og 1. deild.
Haldið var á stað frá Húsavík í hádeginu á föstudaginn 11. mars, farið var með rútu frá Fjallasýn. Í hópnum voru sex 3 manna sveitir og að auki 4 fararstjórar og þjálfarar eða samtals 22. Völsungar áttu 3 sveitir í 3. deild og 2 sveitir í 1. deild, en með í ferðinni var einnig A-sveit Viljans á Seyðisfirði, okkar vinafélags. Meðlimir sveitarinnar eru fluttir til Húsavíkur og hafa æft með okkur í vetur, en félagaskiptin yfir í Völsung voru ekki formlega komin í gegn fyrir mótið og því var keppt undir merkjum Viljans að þessu sinni.
Ferðin suður gekk vel, stoppað eins og oft áður í Borgarnesi og borðaður kvöldverður, og komið á áfangastað í Keflavík um kl 21, en gist var „Bed and Breakfast Keflavík“ sem er á flugvallarsvæðinu í Reykjanesbæ.
Mótið hófst svo á laugardagsmorgun kl. 10,30 í Íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ með mótseningu, síðan hófst keppni í 3. deild kl. 11,00, 2. deild kl. 13,40 og í 1. deild kl. 16,20. Riðlakeppnui var á laugardeginum og úrslit svo á sunnudeginum.
Þetta var sannkallaður dagur Norðanliða sem komu, sáu og sigruðu allar deildirnar en úrslit voru eftirfarandi:Öll lið stóðu sig frábærlega og fóru 4 lið af fimm áfram í undanúrslit auk okkar liðs frá Viljanum. Það fór svo að lokum að spútnikliðið okkar D-sveit Völsungs stóð upp sem sigurvegari í sinni deild en hana skipa Hildur Sigurgeirsdóttir, Sgurður Helgi Friðnýjarson og Olli Karls og með sigrinum lönduðu þau íslandsmeistaratitli í 3. deild. Árangur allra sveitanna var góður og allir afskaplega sælir og glaðir með gengi okkar fólks á mótinu.
1. deild, Íslandsmeistari: Akur B frá Akureyri, Védís Þorsteinsdóttir, Helga Helgadóttir og Íris Vigfúsdóttir
2. deild, Íslandsmeistari : Eik F frá Akureyri: Jón Óskar Ísleifsson, Anna Ragnarsdóttir og Sigrún Ísleifsdóttir
3. deild, Íslandsmeistari : Völsungur D, Sigurður Helgi Friðnýjarson, Hildur Sigurgeirsdóttir og Olli Karls.
Í lok móts var svo að venju veglegt lokahóf í Stapanum þar sem menn nutu góðra veitinga, skemmtatriða og dansað fram eftir kvöldi af miklu fjöri. Það var ljóst að það voru Völsungarnir sem toppuðu ballið með mikillri þáttöku og gleði í dansinum eins og þeim er einum lagið.
Íslandsmótið fór fram í umsjón Íþróttafélagsins Nes í Reykjanesbæ í góðri umgjörð og framkvæmd allri. Í lokahófinu komu fulltrúar Íþróttasambands fatlaðra á framfæri innilegu þakklæti til handa Nes fyrir mótahaldið og samstarfið allt um helgina.
Á mánudag var svo keyrt heim og komið til Húsavíkur um kvöldmatarleitið. Það var þreyttur en ánægður hópur Bocciadeildar Völsungs sem skilaði sér heim eftir frábæra ferð á Íslandsmótið í Reykjanesbæ um helgina.
Að neðan má sjá myndir frá mótinu og með því að smella á þær má sjá þær stærri.
D-sveit Völsungs, Íslandsmeistarar í 3. deild. Olli Karls, Hildur Sigurgeirsdóttir og Sigurður Helgi Friðnýjarson.
D-sveitin í keppni, Olli Karl sýnir tilþrif og einbeitingu .
D-sveit Völsungs, Íslandsmeistarar í 3.deild ásamt Þjálfuunum Eddu Lóu og Lilju Hrund.
Verðlaunaafhending í 3.deild.